Í umræðunni um umskurð drengja undanfarnar vikur hefur þeirri staðhæfingu nokkrum sinnum verið varpað fram að bann við umskurði ómálga drengja í nafni trúarbragða stríði gegn mannréttindum foreldra barnsins, nánar tiltekið trúfrelsi þeirra.
Í viðtali við DV kvað framkvæmdastjóri Stofnunar múslima á Íslandi umskurð drengja heyra til réttar fólks sem múslima. Verða orð hans ekki skilin öðruvísi en svo að þar eigi hann við frelsi múslima til þess að iðka sína trú, þ.e. þeirra trúfrelsi. Benti hann á að umskurður sé ekki nokkuð sem sé bundið við Ísland, heldur tíðkist hann á meðal múslima um allan heim og hafi viðgengist í þúsundir ára.
Samkvæmt erlendum fréttamiðlum hafa rabbínar í Evrópu kallað eftir alþjóðlegum þrýstingi til þess að koma í veg fyrir að frumvarpið verði að lögum og tryggja með því trúfrelsi. Þá hefur forseti samtaka biskupa innan Evrópusambandsins lýst því yfir að lög er banni umskurð barna feli í sér mikla ógn við trúfrelsi í Evrópu.